Innlent

Námskeið í neytendarétti hjá NS

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Neytendasamtökin standa á morgun fyrir námskeiði í heimilisbókhaldi og neytendarétti. Um er að ræða kennslu í heimilisbókhaldi og áætlanagerð auk þess sem farið verður yfir réttindi og skyldur neytenda.

„Neytendasamtökin hafa nokkrum sinnum áður haldið svona námskeið fyrir félagsmenn og hafa þau mælst vel fyrir en um er að ræða persónuleg námskeið sem eru haldin fyrir litla hópa í einu," segir Hildigunnur Hafsteinsdóttir, lögfræðingur hjá Neytendasamtökunum, en hún kennir á námskeiðinu ásamt Ragnhildi Björgu Guðjónsdóttur.

Hildigunnur segir starfsemi samtakanna verða kynnta á námskeiðinu, einkum leiðbeininga- og kvörtunarþjónustunnar sem hún stýrir en þjónustunni bárust hátt í 13.000 erindi í fyrra. „Þá er farið yfir helstu réttindi og skyldur neytenda, hvert þeir geti leitað með ágreining og hvaða rétt þeir eigi sé til dæmis um gallaða vöru eða þjónustu að ræða. Einnig gefst tækifæri til að bera fram fyrirspurnir. Í seinni hluta námskeiðsins er svo farið yfir fjármál heimilanna og kennd notkun heimilisbókhalds Neytendasamtakanna," útskýrir Hildigunnur enn fremur en bókhaldsforritið er félagsmönnum aðgengilegt á heimasíðu samtakanna.

Námskeiðið er ætlað félagsmönnum en hægt er að gerast félagsmaður á heimasíðu samtakanna auk þess að fræðast nánar um námskeiðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×