Innlent

Á reiki hve margar athugasemdir bárust vegna hótelsins

MYND/Sigurjón

Hátt í sextán hundruð manns sendu skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar athugasemdir vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar við Ingólfstorg. Nærri 2300 manns sendu hins vegar athugasemdir í gegnum heimasíðu áhugahóps um torgið.

Frestur til að senda inn athugasemdir vegna fyrirhugaðra breytinga á Ingólfstorgi rann út ellefta september. Eins og kunnugt er var auglýst skipulag þar sem gert er ráð fyrir að reisa fimm hæða hótel við Vallarstræti, rífa Nasa í núverandi mynd og flytja tvö eldri hús, Hótel Vík og Brynjólfsbúð yfir strætið og inn á torgið. Samkvæmt upplýsingum frá skipulags- og byggingarsviði borgarinnar hafa rúmlega 1570 einstaklingar sent póst eða sett sig á undirskriftarlista með athugasemdum við þessar hugmyndir.

Nú þurfa starfsmenn skipulagsins að fara yfir hverja og eina athugasemd og skrifa um þær umsögn. Þetta mun ekki vera metfjöldi athugasemda við skipulag í Reykjavík því á fjórða tug þúsunda athugasemda bárust á sínum tíma vegna lóðar fyrir Landssímann í Laugardal.

Óútskýrður munur er á talningu athugasemda sem skipulagi borgarinnar barst að þessu sinni og svo þeim sem heimasíða áhugahóps um björgun Ingólfstorgs taldi - en samkvæmt talningavél áhugahópsins sendu nær 2300 manns athugasemdir í gegnum þeirra síðu. Óvíst er hvenær klárast að fara yfir athugasemdirnar en þær eru síðan teknar fyrir í skipulagsráði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×