Innlent

Þríeykið boðar til blaðamannafundar

Magnús Már Guðmundsson skrifar
„Það kemur í ljós á blaðamannafundinum," sagði Þór Saari, aðspurður hvort að þingmenn Borgarahreyfingarinnar ætli að segja skilið við hreyfinguna. Þríeykið hefur boðað til blaðamannafundar eftir hádegi í dag.

Undanfarna mánuði hefur hart verið tekist á innan Borgarahreyfingarinnar. Þingmennirnir Þór, Margrét Tryggvadóttir og Birgitta Jónsdóttir funduðu stíft í gær um stöðu sína og von var á yfirlýsingu frá þríeykinu. Þess í stað rituðu þau sameiginlega grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Samkvæmt henni virðast litlar líkur vera á því að þau starfi áfram fyrir Borgarahreyfinguna.

Þríeykið segir flokkseigendafélag hafa tekið yfir hreyfinguna og boðað hafi verið til tilefnislauss landsfundar með stuttum fyrirvara. Eðli og inntaki Borgarahreyfingarinnar hafi verið breytt.

Um stjórnarmenn hreyfingarinnar segir meðal annars: „Í krafti bloggsins blessaða og "umræðunnar" hafa of margir núverandi stjórnarmanna sært með orðum sínum, rofið trúnað og snúið sameiginlegum ákvörðunum á haus, til að geta talist trausts verðir. Í raun sýnt af sér meira ódrenglyndi og ábyrgðarleysi en vænta mætti frá svörnum pólitískum andstæðingi."

Hægt er að lesa greinina hér.




Tengdar fréttir

Formaður Borgarahreyfingarinnar: Við gerðum byrjendamistök

Baldvin Jónsson, formaður Borgarahreyfingarinnar, telur flokkinn hafa gert byrjendamistök eftir að hafa náð frábærum árangri í kosningunum í vor. Þetta kom fram í skýrslu stjórnar sem Baldvin flutti eftir að landsfundur Borgarahreyfingarinnar hófst í morgun. Hann sagði núveranandi ríkisstjórn í litlu sem engu hafa breytt út frá stefnu fyrri ríkisstjórnar.

Ný stjórn Borgarahreyfingarinnar kjörin í dag

Landsfundur Borgarahreyfingarinnar hófst klukkan níu í morgun en hann fer fram á Grand Hótel í Reykjavík. Á eftir verða skipulags- og lagabreytingar ræddar sem og skýrslur stjórnar og þingmanna. Stjórnarkjör fer fram klukkan fjögur í dag en tveir hópar hafa tilkynnt um framboð í stjórn flokksins.

Þríeykið ákveður sig í vikunni

„Ég reikna með að við finnum út úr þessu einhvern tímann í næstu viku,“ segir Þór Saari. Þingmenn hreyfingarinnar íhuga nú eftir dramatískan landsfund hvort þeir muni starfa áfram fyrir Borgarahreyfinguna.

Óljóst hvort Borgarahreyfingin lifi út kjörtímabilið

Þingmenn Borgarahreyfingarinnar íhuga enn hvort þeir hyggist starfa áfram fyrir hreyfinguna eftir miklar deilur um lög og framtíð hennar á landsfundi í gær. Stjórnmálafræðingur segir skipulags-og reynsluleysi einkenna flokkinn og ómögulegt sé að segja til um hvort hann lifi út kjörtímabilið.

Yfirlýsingar að vænta frá þríeykinu

Þingmenn Borgarahreyfingarinnar hafa fundað í allan dag um framtíð sína innan stjórnmálahreyfingarinnar. Formaðurinn er bjartsýnn á að þeir muni starfa áfram fyrir hreyfinguna. Von er á yfirlýsingu frá þríeykinu síðar í dag.

Vonar að þingmennirnir starfi áfram fyrir Borgarahreyfinguna

Varaþingmaðurinn Valgeir Skagfjörð hlaut flest atkvæði í stjórnarkjöri Borgarahreyfingarinnar á fyrsta landsfundi hennar sem haldinn var í gær. Þrír þingmenn hreyfingarinnar gengu út af fundi eftir að lög voru sett var þvert á vilja þeirra. Valgeir segist vona að þingmennirnir þrír haldi áfram að starfa fyrir Borgarahreyfinguna.

Kosið um framtíð Borgarahreyfingarinnar

Kosið verður um það í dag hvort Borgarahreyfingin verði áframhaldandi hreyfing eða hefðbundinn stjórnmálaflokkur á fyrsta landsfundi hreyfingarinnar á Grand hóteli. Hundrað manns sitja nú fundinn og fer stjórnarkjör fram síðdegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×