Innlent

Borgarahreyfingin þingmannslaus - Þráinn áfram óháður

Þráinn Bertelsson verður áfram óháður þingmaður.
Þráinn Bertelsson verður áfram óháður þingmaður.

„Ég er búinn að gera honum ljóst að ég muni ekki breyta minni stöðu. Ég er ekki á leiðinni til baka og verð áfram óháður," segir þingmaðurinn Þráinn Bertelsson en formaður Borgarahreyfingarinnar ræddi við hann um helgina að snúa hugsanlega til baka sem þingmaður þeirra.

Þráinn var afa ósáttur þegar samþingmenn hans innan Borgarahreyfingarinnar, þeir sömu og stofnuðu Hreyfinguna, sviku samkomulag um að kjósa með ESB á sumarþingi. Þess í stað reyndu þau að þvinga meirihlutann til að endurskoða Icesavemálið gegn atkvæði sínu um aðildarumsókn inn í ESB.

Þá tók steininn endanlega úr þegar póstur samflokksmanns Þráins, Margrétar Tryggvadóttur þingkonu Borgarahreyfingarinnar, lak út. Þar var ýjað að því að Þráinn væri hugsanlega með heilabilun. Þráinn sagði sig úr þingflokknum og Margrét baðst síðar afsökunar á þingi á orðum sínum.

Málin flæktust svo heldur betur þegar þingmennirnir þrír sem eftir voru í þingflokk Borgarahreyfingarinnar klufu sig úr grasrótinni og stofnuðu nýjan hreyfingu sem ber einfaldlega nafnið Hreyfingin.

Í kjölfarið stendur Borgarahreyfingin eftir án þingmanna. Því leitaðist nýr formaður Borgarahreyfingarinnar, Valgeir Skagfjörð, eftir því að fá Þráinn til þess að gerast aftur þingmaður þeirra.

Nú er ljóst að svo verður ekki. Þráinn hyggst halda áfram óháður. Borgarahreyfingin er því áhrifalaus á þingi eftir að hafa hlotið sérstaklega glæsta kosningu síðasta vor.

Þráinn segir gott á milli sín og Valgeirs. Hann telur hann mætan og prýðilegan mann og bætir svo við: „Ég óska Borgarahreyfingunni alls góðs og til hamingju með það að vera laus við þremenningana."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×