Fótbolti

Capello dreymir um það að mæta Ítölum í úrslitaleiknum á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englendinga.
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englendinga. Mynd/AFP

Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englendinga, myndi ekki sætta sig við neitt annað en að enska landsliðið kæmist alla leið í úrslitaleikinn á HM í Suður-Afríku næsta sumar. Hann viðurkennir líka að hann dreymi um að mæta þar löndum sínum í ítalska landsliðinu.

Enska landsliðið hefur ekki komist í úrslitaleik HM í 43 ár eða síðan að Englendingar urðu heimsmeistarar á heimavelli árið 1966. Liðið hefur síðan þá komist lengst í undanúrslit en það var á Ítalíu árið 1990. Enska liðið datt út fyrir Portúgal í átta liða úrslitum á síðustu HM sem fram fór í Þýskalandi 2006.

„Ég og leikmennirnir verðum að halda fótunum á jörðinni. Það er löng leið í úrslitaleikinn og við verðum að taka hvert skref fyrir sig og gleyma því sem við höfum unnið áður. Við höfum unnið átta síðustu leiki en það skiptir ekki máli því það er næsti leikur sem er alltaf mikilvægastur," sagði Capello.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×