Innlent

Forsetinn á heimsþingi Bills Clintons

Mynd/GVA
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flytur í vikunni erindi í pallborðsumræðum á heimsþingi Clinton stofnunarinnar, Clinton Global Initiative, þar sem fjallað verður um hvernig fjármálamarkaðir geta þjónað almannaheill á heimsvísu. Fram kemur í tilkynningu frá forsetaembættinu að Ólafur Ragnar mun taka þátt í umræðum á þremur alþjóðlegum málþingum í New York og Washington í vikunni. Þá mun hann eiga fundi með þjóðarleiðtogum, sérfræðingum og áhrifafólki í alþjóðamálum, orkumálum, loftslagsmálum og á fleiri sviðum.

Heimsþingið var stofnað af Bill Clinton þegar hann lét af embætti forseta Bandaríkjanna og sækja það þjóðarleiðtogar, vísindamenn, fjölmiðlafólk, fulltrúar almannasamtaka og áhrifamenn á fleiri sviðum.

Ólafur Ragnar mun flytja lokaræðuna á alþjóðlegu málþingi Louise Blouin stofnunarinnar um lærdómana sem draga má af fjármálakreppunni og hvernig hægt er að byggja upp hagsæld að nýju á traustan og öruggan hátt.

Þá verður hann meðal málflytjenda á leiðtogafundi bandaríska samkeppnisráðsins um orkumál. Þar verður fjallað um hvernig nýting hreinna og sjálfbærra orkugjafa getur aukið samkeppnishæfni þjóða. Forsetinn mun meðal annars fjalla um að reynsla Íslendinga sé efniviður í samvinnu milli þjóða á tæknisviði og saga þjóðarinnar sýni hvernig hægt er að byggja upp orkuöryggi og auka um leið samkeppnishæfni efnahagslífsins. Meðal þátttakenda á leiðtogafundinum verða ýmsir forystumenn úr bandarískum þjóðmálum og viðskiptalífi.

Þá mun Dorrit Moussaieff forsetafrú sækja málþing um einhverfu og aðstoð við einstaklinga og fjölskyldur. Málþingið er haldið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og er forsetafrúin meðal skipuleggjenda þess. Hún mun einnig, í boði Rania Jórdaníudrottningar og Wendi Murdoch, sitja

umræðukvöldverð um þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×