Íslenski boltinn

Tryggvi: Erum minnugir þess sem gerðist í fyrra

Elvar Geir Magnússon skrifar
Tryggvi Guðmundsson í baráttunni.
Tryggvi Guðmundsson í baráttunni.

„Það er hægt að segja það að þetta hafi verið verðskuldað," sagði Tryggvi Guðmundsson, leikmaður FH, eftir 5-0 sigur Hafnarfjarðarliðsins á ÍBV í dag. Tryggvi bar fyrirliðabandið í leiknum þar sem Davíð Þór Viðarsson tók út leikbann.

„Það tók okkur smá tíma að komast í gang en eftir fyrsta markið þá var þessi leikur algjörlega okkar. Eyjamenn sóttu aðeins á okkur áður en okkur tókst að brjóta ísinn og það má kannski segja að fyrsta markið hafi komið gegn gangi leiksins," sagði Tryggvi.

„Það var virkilega gaman að spila þennan leik. Þetta er uppáhalds fótboltaveðrið mitt, völlurinn blautur og þetta gekk mjög vel hjá okkur. Flottur fótbolti hjá okkur og fín barátta."

Íslandsmeistaratitillinn er handan við hornið en FH-ingar geta þó ekki leyft sér að fagna strax. „Við erum vel minnugir þess sem gerðist í fyrra. Þá var Keflavík í þessari sömu stöðu og við. Góður sigur í dag en það er nóg eftir," sagði Tryggvi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×