Enski boltinn

Rooney bætti fyrir mistökin með því að leggja upp tvö mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney fagnar marki hjá United í leiknum í dag.
Wayne Rooney fagnar marki hjá United í leiknum í dag. Mynd/AFP
Manchester United komst aftur á sigurbraut í ensku úrvalsdeildinni eftir 3-1 sigur á Hull á útivelli. Wayne Rooney lagði upp tvö mörk á síðustu 17 mínútunum og sá til þess að mistök sín kostuðu ekki Manchester United stig. Rooney skoraði fyrsta markið og átti því þátt í öllum mörkum sinna manna í leiknum.

Wayne Rooney kom Manchester United í 1-0 með marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Rooney skoraði þá af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Darren Fletcher en Ryan Giggs fipaði þá varnarmenn Hull með því að láta boltann fara.

Hull náði að jafna metin á 59. mínútu þegar Craig Fagan skoraði af öryggi úr vítaspyrnu. Manchester United fékk á sig vítið eftir að Wayne Rooney hafði gefið skelfilega sendingu til baka beint á sóknarmann Hull.

Wayne Rooney átti hinsvegar eftir að bæta fyrir mistökin. Andy Dawson sendi boltann í eigið mark eftir sendingu Rooney á 73. mínútu og níu mínútum síðar lagði Rooney upp þriðja markið fyrir Dimitar Berbatov.

Manchester United minnkaði forskot Chelsea í tvö stig með þessum sigri en liðið fór ennfremur upp fyrir Arsenal sem hafði skotist upp í 2. sætið með 3-0 sigrinum á Aston Villa fyrr í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×