Íslenski boltinn

Gunnar Már semur við FH - ekkert ráðið með Gunnleif

Ómar Þorgeirsson skrifar
Gunnar Már Guðmundsson í leik með Fjölni.
Gunnar Már Guðmundsson í leik með Fjölni. Mynd/Daníel

Gunnar Már Guðmundsson hefur náð samningum við Íslandsmeistara FH en hinn 26 ára gamli miðjumaður, sem oft hefur verið kallaður „Herra Fjölnir", hefur leikið allan sinn feril með Grafarvogsfélaginu. Gunnar Már hefur samþykkt þriggja ára samning við FH.

„Gunnar Már er bara mjög góð viðbót við okkar leikmannahóp. Þetta er sterkur strákur sem er tilbúinn að koma til FH og berjast um sæti í byrjunarliðinu og við erum mjög ánægðir með að fá hann í okkar raðir," segir Pétur Stephensen, framkvæmdarstjóri FH, í samtali við Vísi. Orðrómur hefur verið á kreiki um að landsliðsmarkvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson sé einnig á leið í FH en Pétur vildi ekki tjá sig mikið um það.

„Óli Jó landsliðsþjálfari lét náttúrulega hafa eftir sér að Gunnleifur þyrfti að spila í efstu deild ætli hann sér að vera áfram í landsliðinu og því er náttúrulega líklegt að hann sé að leita sér að liði.

Ég vill hins vegar ekkert staðfesta með Gunnleif. Það er ekkert komið neitt á veg. Bæði Daði [Lárusson] og Gunnar [Sigurðsson] halda áfram eftir minni bestu vitneskju. Við leggjum áherslu á að halda okkar mannskap sem er búinn að vera gera góða hluti undanfarin ár. Það er aðal atriðið," segir Pétur.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×