Innlent

Jón Ásgeir: Morgunblaðið fórnar mikilli fagmennsku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson segir að breytingarnar á Morgunblaðinu séu góðar fyrir Fréttablaðið. Mynd/ Anton Brink.
Jón Ásgeir Jóhannesson segir að breytingarnar á Morgunblaðinu séu góðar fyrir Fréttablaðið. Mynd/ Anton Brink.
„Fyrstu viðbrögð eru að þetta er gott fyrir Fréttablaðið og vont fyrir Moggann," segir Jón Ásgeir Jóhannesson, aðaleigandi 365 miðla sem rekur m.a Fréttablaðið, Stöð 2 og Vísi. Eins og kunnugt er var tilkynnt í dag að Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen hefðu verið ráðnir ritstjórar Morgunblaðsins. Þá hafa skipulagsbreytingar í för með sér að 40 manns missa störf sín og sunnudagsútgáfa blaðsins verður færð fram á laugardagsmorgun.

„Ég held að Mogginn sé að fórna mikilli fagmennsku, auk þess sem Mogginn er greinilega líka að minnka þjónustu við lesendur með því að hætta einum útgáfudegi," segir Jón Ásgeir. Hann segir því að varla sé hægt að halda því fram að þessi aðgerð auki trúverðugleika Morgunblaðsins og vísar í orð starfsmanna blaðsins máli sínu til stuðnings. Fagmennska og rekstrarleg afkoma muni skipta minna máli og víki fyrir því að skoðanir lítils hóps innan Sjálfstæðisflokksins verði bornar á borð.

Jón Ásgeir og Davíð Oddsson hafa eldað saman grátt silfur um árabil og þá ekki síst þann tíma þegar Davíð var forsætisráðherra. Menn hljóta því að spyrja sig hvort framhald verði á. „Það kæmi mér ekki á óvart að slíkir taktar myndu sjást," segir Jón Ásgeir aðspurður hvort hann óttist að hann sjálfur lendi í einhverri orrahríð nú þegar Davíð sest í ritstjórastól Morgunblaðsins.

Jón Ásgeir segir að Morgunblaðið og allt sem í því standi verði sammerkt Davið Oddssyni. „Þjóðin hefur þekkt hann og hans takta í fleiri áratugi og það vita það allir sem til hans þekkja að hann er maðurinn sem hefur síðasta orðið í sínum húsum," segir Jón Ásgeir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×