Lífið

Lög um íslenskan veruleika

Hljómsveitin Létt á bárunni er skipuð hjónunum Svavari Pétri og Berglindi Häsler. mynd/þorbjörn þorgeirsson
Hljómsveitin Létt á bárunni er skipuð hjónunum Svavari Pétri og Berglindi Häsler. mynd/þorbjörn þorgeirsson

Fyrsta plata hjónadúettsins Létt á bárunni er komin út. Svavar Pétur og Berglind úr Skakkamanage standa að baki sveitinni en auk þess gefur Svavar út fyrsta sólóverkefni sitt, Prins Póló.

Útgáfufélögin Brak hljómplötur og Skakkapopp hafa gefið út tvær plötur með hljómsveitunum Prins Póló og Létt á bárunni.

Létt á bárunni er hjónadúett Svavars Péturs og Berglindar Häsler úr Skakkamanage og Prins Póló er einmenningssveit Svavars. Plöturnar, sem heita Einn heima og Sexí, hafa að geyma tólf lög samanlagt. Þær urðu báðar til í kjallara í Fossgötu á Seyðisfirði þar sem þau hjónin eiga heima.

„Þetta byrjaði einhvern tímann í haust þegar við vorum búin að gefa út Skakkamanage-plötuna. Þá vorum við að hugsa um hvað væri næsta skref,“ segir Svavar. „Það byrjuðu að renna út einhver lög rétt fyrir kreppuna miklu. Lögin fóru að snúast um íslenskan veruleika. Þegar maður er fastur á Seyðisfirði með fjöllin og náttúruna beint í æð liggur það beinast við.“

Kæruleysislegur bragur er yfir báðum plötunum enda voru þær unnar á skömmum tíma. „Það er allt látið flakka frekar en að liggja yfir því. Þetta snýst um að gera hlutina frekar en að átta sig á afleiðingunum,“ segir Svavar. Nálgast má plöturnar á síðunni Skakkapopp.is og í völdum verslunum í Reykjavík og Akureyri.

Næstu tónleikar með Létt á bárunni, Prins Póló og Skakkamanage verða á skemmtistaðnum Karamba 6. júní. Eftir þá fer Skakkamanage í tónleikaferð um Þýskaland sem stendur yfir í viku til að kynna plötu sína All Over the Face sem kemur út í Evrópu 1. júní.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.