Íslenski boltinn

Grétar Sigfinnur: Viljum ekki enda á neikvæðum nótum eftir gott sumar

Ómar Þorgeirsson skrifar
KR er nú eina hindrun FH á leið Hafnfirðinga að verja Íslandsmeistaratitil sinn.
KR er nú eina hindrun FH á leið Hafnfirðinga að verja Íslandsmeistaratitil sinn. Mynd/Anton

KR-ingar þurfa nauðsynlega á sigri að halda gegn Breiðabliki í Pepsi-deild karla á Kópavogsvelli í dag til þess að halda pressunni á FH-inga en allt annað en KR-sigur í leiknum þýðir það að FH verður Íslandsmeistar í fimmta skiptið á síðustu sex árum.

Grétar Sigfinnur Sigurðarson, fyrirliði KR, á von á erfiðum leik gegn Blikum. „Leikurinn leggst mjög vel í mig en Blikarnir eru með hörkulið og það er mikið undir fyrir okkur. Við viljum ekki að þetta Íslandsmót klárist í kvöld. Við höfum reyndar bara hugsað um að klára okkar leiki og það stendur ennþá.

Ef við klárum þessa þrjá leiki sem við eigum eftir þá erum við að enda með 48 stig og það eru til að mynda fleiri stig en FH náði síðasta sumar og eitthvað sem við getum verið stoltir af hvað sem FH gerir á lokasprettinum," segir Grétar sigfinnur.

Fyrir utan gott gengi í deildinni stóð KR sig gríðarlega vel í Evrópubikar UEFA í sumar en féll úr keppni í undanúrslitum VISA-bikarsins um síðustu helgi og Grétar Sigfinnur segir mikilvægt að liðið klári deildina með stæl til þess að láta ekki gott gengi liðsins framan af sumri fara í súginn.

„Menn eiga eftir að mæta grimmir í leikinn í dag eftir tapið í bikarnum og þetta er það sem hefur verið að virka vel hjá okkur í sumar að spila þétt. Kannski að þessi landsleikjapása hafi gert okkur smá værukæra. Við viljum ekki enda þetta á neikvæðum nótum eftir helvíti gott sumar.

Ég tala nú ekki um ef að FH fer eitthvað að misstíga sig að þá yrði maður nú heldur betur svekktur eftir á ef við klúðrum tækifærinum með því að tapa okkar leikjum á lokasprettinum," segir Grétar Sigfinnur að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×