Fótbolti

Arnór: Þýðir ekkert að hengja haus

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári í leik með Monaco.
Eiður Smári í leik með Monaco. Nordic Photos / AFP

Arnór Guðjohnsen, faðir og umboðsmaður Eiðs Smára Guðjohnsen, segir engan bilbug að finna á Eiði Smára þrátt fyrir að allt hafi ekki gengið að óskum hjá franska liðinu Monaco í haust.

Eiður Smári var ekki valinn í leikmannahóp Monaco sem mætir Stade Rennais í deildinni í kvöld en hann hefur ekki enn náð að skora fyrir félagið.

Arnór sagði að hvorki hann né Eiður Smári væru byrjaðir að velta því fyrir sér hvort það hafi verið mistök að fara til Mónakó.

„Það sem hann hefur rekið sig mest á er að þetta krefst mun meiri aðlögunartíma en hann gerði ráð fyrir í upphafi. Það er engu líkara en þetta sé allt önnur íþrótt en hann hefur vanist hingað til. Leikmenn eru misjafnlega lengi að aðlagast nýjum aðstæðum og hann þarf lengri tíma."

„En það þýðir ekkert að hengja haus - menn verða bara að halda áfram," sagði Arnór.

„En það er enginn bilbugur á honum. Fótboltamenn verða að geta gengið í gegnum slæm tímabil eins og þau góðu."




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×