Erlent

Hvað er þessi svínaflensa?

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Svínaflensa er smitandi öndunarsjúkdómur sem herjar yfirleitt á svín og orsakast af vissri gerð af inflúensuveiru. Reglulega gengur um faraldur í svínum. Margar ólíkar gerðir eru til af sjúkdómnum og sú gerð sem núna gengur á milli er svokölluð H1N1 týpan.

Hvernig smitast menn af sjúkdómnum?

Menn geta sýkst ef þeir hafa verið í nálægð við svín. Það afbrigði af vírusnum sem núna gengur getur líka smitast á milli manna. Sérfræðingar telja að svínaflensan breiðist út með sama hætti og venjuleg flensa, með hósta og nefrennsli.

Hver eru einkennin?

Einkennin í fólki eru svipuð og einkenni venjulegrar flensu og geta falið í sér hita, þreytu, lystarleysi, hósta og særindi í hálsi. Sumir sem hafa smitast hafa einnig ælt og fengið niðurgang.

Hver er munurinn á svínaflensu, fuglaflensu og venjulegri flensu?

Flensuveira gengur reglulega um í umhverfi manna og dýra og veldur veikindum í mönnum fuglum og svínum. Venjuleg flensa orsakast af vírusi sem breiðist meðal manna. Menn hafa ákveðnar náttúrulegar varnir til að verjast vírusnum. Fuglaflensa orsakast af flensuvírus sem er þannig gerður að hann smitast í fuglum. Svínaflensa er hins vegar þannig að hún smitast í svín. Þessir sjúkdómar orsaka allir sömu öndunareinkenni.

Hversu hættulegur er sjúkdómurinn?

Meira en 80 manns hafa látist og þúsundir hafa veikst, einkum í Mexíkó, en jafnframt í Bandaríkjunum og Nýja Sjálandi. Þó virðast lyfin Tamiflu og Releza virka gegn H1N1 afbrigðinu.

Hvers er að óttast?

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur varað við líkum á heimsfaraldri og ráðlagði ríkjum heims að auka eftirlit vegna sjúkdómsins. Flensuveirur geta stökkbreyst hratt og gert lyfjafyrirtækjum erfitt fyrir að tryggja aðgang að viðeigandi lyfjum. Nýjasta afbrigði H1N1 veirunnar er sambland af ólíkum útgáfum sjúkdómsins. Slíkt sambland getur leitt til þróunar á afbrigði sem menn hafa litlar varnir gegn.

Heimild: Sky fréttastofan.

Viðbót skrifuð 28. apríl 2009.

Á vef Landlæknisembættisins má finna ítarlegar upplýsingar um svínaflensu












Fleiri fréttir

Sjá meira


×