Erlent

Elsta fyrirbæri sem sést hefur í alheiminum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Glampinn frá sprengingu sem varð fyrir 13 milljörðum ára.
Glampinn frá sprengingu sem varð fyrir 13 milljörðum ára. MYND/Harvard

Vísindamenn komu í síðustu viku auga á elsta fyrirbæri sem sést hefur í alheiminum.

Hér er ekki átt við einhvern eldfornan öldung í Japan, þótt þeir séu margir í eldri kantinum þar, heldur hafa menn nú komið auga á stjörnu sem sprakk fyrir 13 milljörðum ára. Þetta kann að hljóma eins og þversögn enda stjörnufræðin í senn margbrotin fræðigrein og heillandi.

Það sem gerðist var að gervitungl nam skæran bjarma af gammageislum sem stóð yfir í heilar tíu sekúndur á fimmtudaginn fyrir viku. Stjörnusjónaukar heimsins sneru sér allir sem einn að þessu fyrirbæri og menn ætluðu hreinlega ekki að trúa eigin augum. Dr. Edo Berger, stjörnufræðiprófessor við Harvard, sagði í samtali við CNN að eftir glampann hefðu menn beðið eftir innrauðu geisluninni sem jafnan kemur í kjölfar sprenginga í geimnum. „Hún kom aldrei," sagði Berger.

Kannski engin furða því það sem við vorum loksins að sjá núna hérna á jörðinni var stjarna að springa skömmu eftir að alheimurinn varð til. Ja, skömmu, 600 milljónum ára eftir að hann varð til, réttara sagt, en hjá stjörnufræðingum er það bara eins og einn kaffitími.

Stjarnan sem menn fengu þarna að sjá springa er talin hafa verið 30 til 100 sinnum stærri en sólin okkar svo ætla má að sprengingin hafi verið þokkaleg. Glampinn frá sprengingunni var hins vegar 13 milljarða ára á leið til jarðar svo hún hefur verið einhvern spöl frá okkur. Það verður þó að teljast merkileg tilviljun að eftir allt þetta ferðalag birtist glampinn hér einmitt á alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar, 2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×