Innlent

Tvær rúður brotnar í Vestmannaeyjum

Það var í ýmsu að snúast hjá lögreglu í vikunni sem leið. Nokkur erill var í kringum skemmtanahald helgarinnar og eitthvað um stympingar. Hins vegar liggja engar kærur fyrir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni í Vestmannaeyjum.

Þá segir frá því að einn hafi fengið að gista fangageymslur lögreglu eftir skemmtanahald helgarinnar en hann var handtekinn á veitingastaðnum Volcano eftir að hafa hrint einum gesti staðarins á útidyrahurð þannig að rúðan í hurðinni brotnaði. Gestinn sakaði ekki. Hann sýndi einnig mótþróa við handtöku og var ósáttur við aðkomu lögreglu.

Þá var tilkynnt um að rúða hafi verið brotin í verslun Olís við Græðisbraut. Er talið að rúðan hafi verið brotin aðfaranótt sunnudags. Ekki er vitað hver þarna var að verki en þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um hugsanlegan geranda eru vinsamlegast beðinir um að hafa samband við lögreglu.

Aðfaranótt sl. sunnudags var lögreglu tilkynnt um að skemmdir hafi verið unnar á bifreið sem stóð við Miðstræti 18. Er talið að sá sem olli skemmdunum hafi verið karlmaður, klæddur í svartan jakka, bláar gallabuxur og með gleraugu. Lögreglan hvetur þá sem einhverjar upplýsingar hafa um málið, eða kannast við aðila sem passar við lýsinguna, um að hafa samband.

Tveir ökumenn fengu sekt vegna brota á umferðarlögum í vikunni sem leið en um er að ræða sekt vegna ólöglegrar lagningar.

Sl. fimmtudag var ungur ökumaður settur í akstursbann eftir að hafa verið búinn að safna fimm punktum í ökuferilsskrá. Þar sem viðkomandi var á bráðabirgðarskírteini, en hann er á átjánda ári, öðlast hann ekki ökuréttindi að nýju fyrr en hann hefur lokið við að sækja sérstakt námskeið og staðist ökupróf að nýju. Eitt umferðaróhapp var tilkynnt lögreglu í vikunni en um er að ræða minniháttar tjón og engin slys á fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×