Erlent

Biskupar í Argentínu skera upp herör gegn fátækt

Biskupar í Argentínu hafa skorið upp herör gegn fátækt í landinu eftir að páfinn sagði snaraukna örbirgð þar í landi hneykslanlega. Argentínskir kirkjunnar menn telja um fjörutíu prósent landsmanna lifa við fátækt sem er langt umfram það sem stjórnvöld halda fram.

Mörg þúsund Argentínumenn komu saman í Buenos Aires síðdegis í gær og báðu til Cayetano, verndardýrlings starfa og atvinnulausra. Það gerðu trúaðir kaþólikkar í landinu eftir að Benedikt páfi sextándi gerði fátækt í Argentínu að umræðuefni í ávarpi nýlega og sagði fjölgun fátækra í landinu hneyksli.

Argentína hefur verið í fjárkröggum um langt skeið og leitaði á náðir Alþjóða gjaldeyrissjóðsins seint á tíunda áratug síðustu aldar. 2001 lýsti landið sig gjaldþrota en þá voru opinberar skuldir Argentínu fimmtíu og fjögur prósent af vergri landsframleiðslu, sem er töluvert minna en talið er að skuldir Íslands séu og geti orðið. Frá 2001 var hagvöxtur í landinu í sex ár en síðan hefur sigið á ógæfuhliðina að mati sérfræðinga.

Stjórnvöld í Argentínu hafa frá áramótum talið að um fimmtán prósent þjóðarinnar, eða nærri sex milljónir Argentínumanna, búi við fátækt og það ekki breytt frá því alheimskreppan skall á í haust. Biskupar sem sjá raðir í súpueldhús þar sem þeir vinna telja að nú búi nærri fjörutíu prósent Argentínumanna við fátækt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×