Erlent

Stefni á til­raun með kjarn­orku­knúna eld­flaug á norður­slóðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimír Pútin, forseti Rússlands, opinberaði kjarnorkuknúnar stýriflaugar Rússlands árið 2018.
Vladimír Pútin, forseti Rússlands, opinberaði kjarnorkuknúnar stýriflaugar Rússlands árið 2018. EPA/VYACHESLAV PROKOFIEV

Rússar eru taldir líklegir til að gera á næstu dögum tilraun með nýja tegund stýriflauga sem getur bæði borið kjarnorkuvopn og er knúin af kjarnorku. Eldflaugin ber heitið „Burevestnik“ en er kölluð SSC-X-9 Skyfall á Vesturlöndum og hafa fregnir borist af því að skjóta eigi henni á loft á norðurslóðum.

Þar sem stýriflaugin á að vera knúin með kjarnorku á drægni hennar að vera svo gott sem ótakmörkuð. Sérfræðingar hafa þó áhyggjur af því að slys geti valdið mikilli geislavirkni.

Samkvæmt frétt Barents Observer hafa Rússar lokað stóru svæði undan ströndum eyjaklasans Novaya Zemlya en vísindamenn Rosatom, rússnesku kjarnorkustofnunarinnar, hafa gert þar tilraunir í áratugi.

Tilraunir með Skyfall hafa staðið þar yfir frá 2017 og hafa fregnir borist af stækkun tilraunasvæðisins á undanförnum árum. Árið 2019 létust nokkrir starfsmenn Rosatom á eyjaklasanum vegna geislavirkni eftir að eldflaug sprakk á tilraunasvæði stofnunarinnar.

Sjá einnig: Fimm látnir eftir kjarnorkuslys í Rússlandi

Þá hafa Rússar einnig komið fjórum skipum og tveimur flugvélum fyrir á svæðinu, auk þess sem Bandaríkjamenn flugu nýverið sérstakri flugvél sem hönnuð er til að greina geislavirkni af gífurlegri nákvæmni yfir svæðið.

Kort sem sýnir hvar Novaya Zemlya eyjarnar eru.Google

Eins og fram kemur í frétt Newsweek er flugvél þessi sérstaklega hönnuð til að greina samsætur í andrúmsloftinu og er hún í daglegu tali kölluð „kjarnorkusprengjuþefarinn“.

Bæði Bandaríkjamenn og Bretar hafa sent eftirlitsvélar að Barentshafinu á undanförnum vikum.

Meðal þeirra sem hafa áhyggjur af tilraunum Rússa með kjarnorkuknúnar eldflaugar og kjarnorkuknúin tundurskeyti eru Norðmenn. Leyniþjónusta Noregs birti í fyrra skýrslu þar sem fram kom að hætta væri á geislamengun vegna slysa við tilraunirnar. Þar kom einnig fram að Rússar væru ekki líklegir til að hætta þessum tilraunum.

Deilt um eldflaugasáttmála

Ráðamenn í Rússlandi lýstu því yfir á dögunum að þeir væru hættir að fylgja eftir eldflaugasáttmála sem gerður var milli Rússlands og Bandaríkjanna á árum áður. Samkomulag þetta kallaðist Intermediate-Range Nuclear Treaty (INF) og fól í sér bann við framleiðslu og notkun meðaldrægra eldflauga og stýriflauga (Fimm hundruð til fimm þúsund kílómetrar) sem skotið er af jörðu niðri og geta borið kjarnorkuvopn.

Sáttmálinn bannaði ekki eldflaugar sem skotið er frá skipum, kafbátum eða flugvélum.

Bandaríkjamenn riftu samkomulaginu árið 2019 eftir að hafa um árabil sakað Rússa um að brjóta gegn því. Meðal annars var vísað til þess að Rússar væru að nota stýriflaugar sem sáttmálinn bannaði. Þegar Barack Obama var forseti sökuðu Bandaríkjamenn einnig Rússa um að brjóta gegn sáttmálanum.

Sjá einnig: Bandaríkin slíta eldflaugasáttmála við Rússland

Í byrjun þessarar viku sendi utanríkisráðuneyti Rússlands út yfirlýsingu um að ríkið væri ekki lengur bundið sáttmálanum og var vísað til þess að Bandaríkjamenn væru að flytja eldflaugar til Evrópu og Asíu.

Ekki var nefnt í yfirlýsingunni að Rússar hefðu skotið Oreshnik skotflaugum að Úkraínu í nóvember. Notkun þeirra var bönnuð í INF-sáttmálanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×