Lífið

Hefur selt 150 þúsund bækur í Þýskalandi

Viktor ásamt kertastjökunum sem koma við sögu í nýjustu bók hans.
fréttablaðið/anton
Viktor ásamt kertastjökunum sem koma við sögu í nýjustu bók hans. fréttablaðið/anton
Nýjasta glæpabók Viktors Arnars Ingólfssonar, Sólstjakar, kemur í verslanir 1. október. Bókin kemur út í Þýskalandi í vor á vegum útgefandans Lübbe, hins sama og gefur út bækur Arnaldar Indriðasonar þar í landi. „Þýskaland er annar eða þriðji stærsti bókamarkaður heims og þar koma út níutíu þúsund titlar á ári. Bara það að komast í bókabúðirnar er afrek í sjálfu sér,“ segir Viktor, sem hefur selt bækur sínar í um 150 þúsund eintökum þar í landi.

Sólstjakar, sem skartar sömu aðalpersónum og í Aftureldingu, átti upphaflega að gerast eingöngu í sendiráði Íslands í Berlín. „Það var hugmynd sem vaknaði árið 2000 þegar ég fór til Berlínar og fékk að heimsækja sendiráðið þar,“ segir Viktor. „Þarna var mjög flott sögusvið til að vinna með en þegar fléttan fór að þroskast varð alltaf minna og minna úr þeim þætti.“ Útgefanda Viktors í Þýskalandi var létt þegar hann frétti af breyttu sögusviði bókarinnar. „Þýski markaðurinn er mjög mikilvægur og hún var lítið hrifin af því að fá sögu sem gerist í Þýskalandi. Þau eru að fiska eftir glæpasögu sem gerist meira og minna á Íslandi því þau eiga nóg af glæpasögum sem gerast í Berlín.“

Kertastjakarnir tveir sem koma við sögu í bókinni eiga sér skemmtilega forsögu. Leirlistakonan Margrét Jónsdóttir fékk nokkra höfunda, þar á meðal Viktor, til að skrifa fyrir hana lýsingu á leirlistagripum. „Ég var að skrifa einn af upphafsköflunum í bókinni og það passaði vel að vera með tvo stóra kertastjaka og ég sendi henni lýsingu á þeim. Það er karlkyns leirlistamaður í sögunni sem á að hafa gert þessa stjaka. Hann kallar þá sólstjaka og þaðan er nafnið komið,“ segir Viktor sem festi síðan sjálfur kaup á stjökunum. „Það er gott að hafa þá við höndina og ég held líka að ég hafi fengið smá afslátt.“ - fbFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.