Innlent

Jólaverslun stefnir í 13,4 milljarða

Jólaös í Kringlunni Í könnun Rannsóknaseturs verslunarinnar kemur fram að algengast sé að hver fullorðinn verji um 25 til 75 þúsund krónum til jólagjafakaupa. Fréttablaðið/Anton
Jólaös í Kringlunni Í könnun Rannsóknaseturs verslunarinnar kemur fram að algengast sé að hver fullorðinn verji um 25 til 75 þúsund krónum til jólagjafakaupa. Fréttablaðið/Anton

Gert er ráð fyrir að jólaverslunin verði óbreytt frá síðasta ári að magni til, en vegna verðhækkana verði veltan átta prósentum meiri í krónum talið. Þetta kemur fram í árlegri spá Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Fram kemur að í fyrra hafi jólaverslun á föstu verðlagi dregist saman um 18,3 prósent milli ára, en í fjögur ár þar á undan hafi árlegur vöxtur jólaverslunarinnar að meðaltali numið 7,3 prósentum.

Í inngangi sérrits um jólainnkaupin segir Emil B. Karlsson, forstöðumaður Rannsóknasetursins, spár um jólaverslunina vera hóflegar. „Aðstæður í efnahagslífinu og þróun einkaneyslu gefa ekki tilefni til mikillar bjartsýni um aukinn munað fyrir þessi jól eins og oft áður. Önnur gildi hafa rutt sér til rúms, sem felast í því að þegar magnið minnkar aukast gæðin." segir hann.

Í skýrslunni er áætlað að velta í smásöluverslun sem rekja megi til jólanna nemi um 13,4 milljörðum króna. Það jafngildir því að hver Íslendingur verji að jafnaði næstum 42.000 krónum til jólainnkaupa. Í fyrra var upphæðin 38.600 krónur.

Í könnun kemur fram að fólk byrji nú fyrr á jólainnkaupum en áður og dreifi þeim jafnvel á allt árið. Þá versla fleiri á netinu fyrir þessi jól en áður hefur verið. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×