Enski boltinn

Styttist í met hjá Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dimitar Berbatov er búinn að skora flest mörk United-manna í sigurgöngunni eða 6.
Dimitar Berbatov er búinn að skora flest mörk United-manna í sigurgöngunni eða 6. Mynd/GettyImages

Manchester United getur unnið tólfta deildarleikinn í röð þegar þeir taka á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á eftir. Með sigri í dag væru Manchester-menn aðeins einum leik frá því að jafna metið í ensku úrvalsdeildinni en Arsenal vann þrettán leiki í röð tímabilið 2001-2002.

Manchester United er búið að vinna ellefu síðustu deildarleiki sína og þeir hafa komið á móti Stoke (úti), Middlesbrough (heima), Chelsea (h), Wigan (h), Bolton (ú), West Brom (ú), Everton (h), West Ham (ú), Fulham (h), Blackburn (h) og Newcastle (ú).

Átta af þessum ellefu leikjum hafa unnist með einu marki þar af sex þeirra 1-0. Stærsti sigurinn var 5-0 á móti West Bromwich en United-liðið vann einnig 3-0 sigra á bæði Chelsea og Fulham. Manchester vann fyrstu níu leikina án þess að fá á sig mark.

Manchester United tapaði síðast stigum í úrvalsdeildinni í markalausu jafntefli á móti Tottenham 13. desember en United hefur ekki tapað síðan liðið heimsótti Arsenal-menn 8. nóvember. Arsenal vann þá 2-1 og skoraði Frakkinn Nasri bæði mörkin.

Met Arsenal er frá því að liðið tryggði sér meistaratitilinn 2002 með því að vinna þrettán síðustu leiki sína á tímabilinu. Tólfti sigurinn af þessum þrettán var einmitt 1-0 sigur á móti Manchester United á Old Trafford.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×