Erlent

150 þúsund almennir borgarar innlyksa

Uppreisnarmenn Tamíl Tígra á Srí Lanka saka stjórnarher landsins um að hafa varpað sprengjum á almenna borgara í sókn sinni í norðurhluta landsins. Stjórnvöld neita því og segja tígrana skjóta á borgara sem reyni að flýja átakasvæðið. Allt að 150 þúsund almennir borgarar eru innlyksa á átakasvæðinu.

Talsmaður varnarmálaráðuneytisins á Srí Lanka segir að um fimmtíu þúsund almennir borgarar hafi flúið átakasvæðið þar sem stjórnarher og tígrarnir hafa barist af hörku síðustu mánuði. Það hafi gerst í gær og í morgun eftir að hermenn hafi brotið varnargarð sem tígrarnir hafi reist. Talið er að um 150 þúsund almennir borgarar séu ennþá innlyksa á tuttugu ferkílómetra strandsvæði þar sem stjórnvöld segja að eftirlifandi tígrar séu innikróaðir.

Stjórnarherinn er nú sagður undirbúa lokasókn gegn uppreisnarmönnunum. Frestur sem eftirlifandi tígrar fengu til að gefast upp rann út í morgun án þess að þeir legðu niður vopn.

Alþjóða Rauði krossinn hefur áhyggur af ástandinu. Mörg hundruð borgarar hafi fallið eða særst í bardögum síðustu vikna og ekki hafi tekist að koma hjálp til særðra nema að litlu leyti. Komi til stórsóknar geti orðið enn meira blóðbað.

Talsmaður tígranna sagði í samtali við BBC í morgun að margir almennir borgarar hefðu fallið í loftárásum stjórnarhersins síðustu vikur og sprengjur meðal annars fallið á munaðarleysingjahæli.

Talsmaður stjórnarhersins neitar þessu og segir að sprengjum hafi ekki verið varpað á svæði þar sem vitað hafi verið að almennir borgarar héldu til. Tígrarnir hafi hins vegar skotið á borgara á flótta til að tryggja að fleiri færu ekki af svæðinu. Ef allir borgarar forðuðu sér yrðu uppreisnarmennirnir auðveld bráð.




Tengdar fréttir

Tamíl Tígrar saka herinn um árásir á borgara

Talsmenn Tamíl Tígranna á Sri Lanka ásaka stjórnarherinn um að hafa gert loftárásir á óbreytta borgara á meðan herinn sótti fram á norðurhluta eyjarinnar. Stjórnvöld neita ásökunum og segja á móti að Tígrarnir sjálfir hafi skotið á almenna borgara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×