Innlent

Fjárhagsleg staða kvennaathvarfsins bágborin

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf, segir fjárhagsstöðu samtakanna bágborna en samtökunum hefur ítrekað verið synjað um styrki hjá sveitarfélögunum.

Samtök um kvennaathvarf skiluðu 6,5 milljóna króna tapi á síðasta ári. Að sögn Sigþrúðar Guðmundsdóttur, framkvæmdastýru samtakanna, skýrist tapið að mestu af kostnaði vegna framkvæmda sem samtökin réðust í á húsnæði sínu, en það var stækkað að innan til að bæta aðstöðuna.

Samtökin eru með samstarfssamning við Reykjavíkurborg til þriggja ára en hefur auk þess sótt um styrki hjá sveitarfélögunum. Samtökin hafa þegar sótt um styrki hjá langflestum sveitarfélögum á landinu vegna yfirstandi rekstrarárs og hafa þegar fengið margar synjanir. Sigþrúður segir að framlög frá ríkissjóði hafi verið skert og því hafi samtökin þurft að sníða sér stakk eftir því. Hún segir að skert fjárframlög og bág fjárhagsstaða samtakanna hafi ekki komið alvarlega niður á starfsemi þeirra enn sem komið er. Þó hafi samtökin ekki getað ráðið sérstakan starfsmann í gæslu barna þeirra kvenna sem leita til samtakanna eins og hafði verið fyrirhugað.

Sigþrúður segir þó að þjónustan sé hin sama og áður. Samtökin hafi gripið til sparnaðarúrræða og þurfi því ekki að skerða þjónustu við þær konur sem þurfi á þjónustu samtakanna að halda. Hún segir að samtökin finni fyrir miklum velvilja hjá almenningi, engin breyting hafi orðið á því. Fólk gefi bæði gjafir og vinnu sína.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×