Innlent

Þvinguð á námskeið

Velferðarráð Reykjavíkur vill að gerð verði sú breyting á lögum að þeir sem fá framfærslustyrk frá borginni verði skikkaðir til að mæta á námskeið. Að öðrum kosti fái fólk ekki bætur.

Það eru um 3600 manns sem fá 115 þúsund króna framfærslu frá borginni til að lifa af út mánuðinn. Hópurinn stækkar ört, hefur meira en tvöfaldast síðustu 3 mánuði og mest er aukningin á ungu fólki sem ekki hefur rétt á atvinnuleysisbótum.

„Það er svo mikilvægt að við náum í hann allan, ekki bara 50% af honum, heldur hvern einasta einstakling og getum unnið með hann strax frá byrjun. Annars erum við að horfa á hóp fólks sem er kannski í vanda til framtíðar," segir Jórunn Frímannsdóttir, formaður velferðarráðs.

„Skilyrðing er eitt og hvatning er annað. Þetta er lægsta öryggisnetið okkar í samfélaginu sem er 115 þúsund krónur í grunninn," segir Drífa Snædal fulltrúi VG í velferðarráði.

Drífa Snædal fulltrúi VG í velferðarráði.
Drífa lítur svo á að meirihlutinn í Velferðarráði sé með þessu að afnema eða hliðra til framfærsluskyldu sveitarfélaganna sem hefur verið við líði frá tímum Grágásar og er þess fullviss að félags-og tryggingamálaráðherra leggi ekki blessun sína yfir lagabreytingu sem feli slíkt í sér. Formaður Velferðarráðs á hins vegar von á jákvæðum viðbrögðum.

„Það er verið að skoða atvinnuleysisbótaréttinn með tilliti til sambærilegra þátta. Ég held að hann muni skoða þetta vel og taka jákvætt í þessa hugsun og sjá hvort það sé einhver leið til að útfæra það," segir Jórunn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×