Enski boltinn

Fabregas kom inn á sem varamaður og skoraði tvö

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas, fyrirliði Arsenal-liðsins átti frábæra innkomu í leikinn.
Cesc Fabregas, fyrirliði Arsenal-liðsins átti frábæra innkomu í leikinn. Mynd/AFP
Arsenal vann 3-0 sigur á Aston Villa í baráttu liðanna í 3. og 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Cesc Fabregas, fyrirliði Arsenal-liðsins, byrjaði á varamannabekknum en kom inn á og skoraði tvö mörk í seinni hálfleiknum.

Fabregas skoraði glæsimark beint úr aukaspyrnu aðeins átta mínútum eftir að hann kom inn í leikinn í seinni hálfleik og gerði síðan seinna markið sitt níu mínútum fyrir leikslok eftir frábæra sendingu frá Theo Walcott.

Arsenal-menn voru nærri því að skora í fyrri hálfleik og langbesta færi fyrri hálfleiksins fékk Eduardo Da Silva en hann náði laflausu skoti að marki eftir laglegan snúning í teignum.

Cesc Fabregas kom inn fyrir Denilson á 57. mínútu og fiskaði sjálfur aukaspyrnuna sem hann skoraði úr átta míútum síðar. Fabregas meiddist um leið og hann skoraði seinna markið sitt og varð að fara af velli í kjölfarið.

Abou Diaby innsiglaði síðan 3-0 sigur Arsnal með marki í uppbótartíma þegar hann fékk óáréttur að bera boltann upp að teignum og skora með laglegu skoti.

Arsenal og Aston Villa voru með jafnmörg stig fyrir leikinn en Arsenal komst upp í 2. sætið með þessum sigri. Manchester United getur endurheimt annað sætið með sigri á Hull á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×