Erlent

Fjarstýrð þyrla olli usla í indverska þinginu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Indverska þinghússins er vel gætt.
Indverska þinghússins er vel gætt. MYND/AP

Neyðarástandi var lýst yfir í indverska þinghúsinu í gær þegar óvenjulegur vágestur birtist þar fyrirvaralaust.

Byggingin sem hýsir þing Indlands í Nýju-Delí er ákaflega fullkomin í öryggislegu tilliti og þingmannanna vel gætt enda telur neðri deild þess yfir 500 þingmenn og efri deildin 250. Þingið er umlukt háum þykkum steinveggjum og er hreinasta virki.

Það varð því uppi fótur og fit meðal öryggisvarða þingsins í gær þegar tæplega hálfs metra langri fjarstýrðri þyrlu var flogið yfir veggina miklu og inn í forgarð þinghússins. Allt öryggiskerfi hússins fór í gang með tilheyrandi látum, verðir gripu til vopna sinna og bjuggu sig undir hin hinstu rök.

Enginn reyndist þó í lífshættu að þessu sinni og lenti þyrlan í rólegheitum í garðinum. Stjórnandinn er ófundinn en talið er að þyrlan hafi komið frá Talkatora-leikvanginum sem er þarna í grenndinni. Allt flug er stranglega bannað í nágrenni þingsins og yfir því eftir hryðjuverkaárás árið 2001 sem Indverjar kenna Pakistönum um og varð 12 manns að bana.

Menn hefðu þó sennilega mátt anda rólega í gær þar sem þingfundur stóð ekki yfir og húsið var nánast mannlaust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×