Innlent

Óljóst hvort Borgarahreyfingin lifi út kjörtímabilið

Þingmenn Borgarahreyfingarinnar íhuga enn hvort þeir hyggist starfa áfram fyrir hreyfinguna eftir miklar deilur um lög og framtíð hennar á landsfundi í gær. Stjórnmálafræðingur segir skipulags-og reynsluleysi einkenna flokkinn og ómögulegt sé að segja til um hvort hann lifi út kjörtímabilið.

Mikið hefur gengið á í Borgarahreyfingunni að undanförnu, Þráinn Bertelsson einn fjögurra þingmanna hreyfingarinnar sagði sig úr þingflokknum vegna innbyrðis deilna.

Þá lét framkvæmdastjóri þingflokksins af störfum og formaður stjórnar Borgarhreyfingarinnar sagði skilið við hann. Nú síðast í gær á fyrsta landsfundi Borgarahreyfingarinnar ruku þingmennirnir þrír Birgitta, Þór og Margrét á dyr í fússi því lög voru samþykkt með meirihluta atkvæða sem gengu þvert á vilja þeirra. Þau íhuga nú hvort þau muni halda áfram að starfa fyrir hreyfinguna.

Raunar var andrúmsloftið svo rafmagnað á landsfundinum í gær og það mátti best sjá þegar stjórnarmaður hreyfingarinnar Guðmundur Andri Skúlason og þingkonan Birgitta Jónsdóttir fóru í hár saman fyrir framan myndavélina.

En það má segja að fljótt skipist veður í lofti því það var aldeilis annað hljóð í þeim á kosningavöku Borgarahreyfingarinnar í apríl síðastliðnum. „Við erum algjörlega samstíga. við höfum leyst úr öllum okkar málum," sagði Þór Saari.

„Ég held að þarna hafi komið saman fólk með með ólíkar skoðanir en svipaðir væntingar um breytingar," segir Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur, um vanda hreyfingarinnar.

Einar segir erfitt að segja til um hvort að Borgarahreyfingin lifi af kjörtímabilið. Ljóst sé að þingmennirnir komi til með að sitja út kjörtímabilið. Ómögulegt sé að segja til um hvort að flokkurinn komi til með að lifa af næstu kosningar. Sagan sé ekki hagstæð nýjum flokkum eins og Borgarahreyfingunni.


Tengdar fréttir

Formaður Borgarahreyfingarinnar: Við gerðum byrjendamistök

Baldvin Jónsson, formaður Borgarahreyfingarinnar, telur flokkinn hafa gert byrjendamistök eftir að hafa náð frábærum árangri í kosningunum í vor. Þetta kom fram í skýrslu stjórnar sem Baldvin flutti eftir að landsfundur Borgarahreyfingarinnar hófst í morgun. Hann sagði núveranandi ríkisstjórn í litlu sem engu hafa breytt út frá stefnu fyrri ríkisstjórnar.

Ný stjórn Borgarahreyfingarinnar kjörin í dag

Landsfundur Borgarahreyfingarinnar hófst klukkan níu í morgun en hann fer fram á Grand Hótel í Reykjavík. Á eftir verða skipulags- og lagabreytingar ræddar sem og skýrslur stjórnar og þingmanna. Stjórnarkjör fer fram klukkan fjögur í dag en tveir hópar hafa tilkynnt um framboð í stjórn flokksins.

Vonar að þingmennirnir starfi áfram fyrir Borgarahreyfinguna

Varaþingmaðurinn Valgeir Skagfjörð hlaut flest atkvæði í stjórnarkjöri Borgarahreyfingarinnar á fyrsta landsfundi hennar sem haldinn var í gær. Þrír þingmenn hreyfingarinnar gengu út af fundi eftir að lög voru sett var þvert á vilja þeirra. Valgeir segist vona að þingmennirnir þrír haldi áfram að starfa fyrir Borgarahreyfinguna.

Kosið um framtíð Borgarahreyfingarinnar

Kosið verður um það í dag hvort Borgarahreyfingin verði áframhaldandi hreyfing eða hefðbundinn stjórnmálaflokkur á fyrsta landsfundi hreyfingarinnar á Grand hóteli. Hundrað manns sitja nú fundinn og fer stjórnarkjör fram síðdegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×