Enski boltinn

Aston Villa að kaupa Downing á tólf milljónir punda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stewart Downing er á leiðinni til Aston Villa.
Stewart Downing er á leiðinni til Aston Villa. Mynd/AFP
Stewart Downing er á leiðinni til Aston Villa samkvæmt frétt á Sky Sports en Middlesbrough hefur samþykkt að selja landsliðsmanninn sinn á 12 milljónir enskra punda eða um 2,5 milljarða íslenskra króna.

Stewart Downing er 24 ára örvfættur vængmaður sem hefur spilað 23 landsleiki fyrir England. Hann hefur skorað 20 mörk í 188 leikjum í ensku úrvalsdeildinni en tókst ekki að skora deildarmark með Middlesbrough á síðasta tímabili.

Það hefur verið búist við því að Downing færi frá Middlesbrough eftir að félagið féll úr ensku úrvalsdeildinni í vor. Hann vildi fara frá liðinu í janúar-glugganum þegar Tottenham hafði mikinn áhuga á að kaupa hann en Middlesbrough vildi ekki selja hann þá.

Stewart Downing fótbrotnaði í síðasta leik tímabilsins sem var einmitt á móti Aston Villa en hefur notað sumarið til að jafna sig á þeim meiðslum. Hann fór í aðgerð 22. maí en það ætti að taka hann fjóra til sex mánuði að ná sér að fullu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×