Erlent

Nældu sér í saur á náttúrugripasafninu í London

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Á safninu.
Á safninu. MYND/Telegraph

Steingerður risaeðlusaur var það eina sem nokkrir þjófar höfðu upp úr krafsinu þegar þeir létu greipar sópa á náttúrugripasafninu í London.

Þeir hafa án efa orðið vonsviknir, sem þarna voru á ferð, þegar þeir áttuðu sig á því hver fengur þeirra var en talið er líklegt að raunverulegt ætlunarverk þeirra hafi verið að næla sér í hluta af beinagrind títanseðlu sem safnið hefur til sýnis, steingerðri og vitaskuld ævafornri.

Lögreglu var tilkynnt um saurhvarfið en aðhafðist ekki frekar í málinu enda alls óvíst um verðgildi afurðarinnar. Sérfræðingar segja þó að sé saurinn ósvikinn megi gera því skóna að hann hafi nokkurt verðgildi.

Um náttúrugripasafnið í London fara 3,8 milljónir gesta ár hvert og hafa átta safngripir horfið síðustu sex árin. Til dæmis hvarf heilmikið safn fiðrilda meðan á flutningi þess frá skordýradeild safnsins stóð fyrir nokkrum árum og uppstoppaður íkorni virðist einnig hafa freistað fingralangra því hann hvarf árið 2006.

Risaeðlusaurinn er þó það frumlegasta sem nokkrum manni hefur tekist að stela úr safninu en þar sem verðmæti hans er að líkindum takmarkað er safnstjórninni nánast sama um hvarfið, skítsama.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×