Enski boltinn

Kári og Gylfi skoruðu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson var á skotskónum í dag.
Gylfi Þór Sigurðsson var á skotskónum í dag. Mynd/Heimasíða Reading

Kári Árnason og Gylfi Þór Sigurðsson voru báðir á skotskónum með sínum liðum er Plymouth og Reading mættust í ensku B-deildinni í dag.

Plymouth vann leikinn, 4-1, og kom Kári Plymouth í 2-0 með skallamarki á 59. mínútu. Gylfi minnkaði svo muninn fyrir Reading með öðru skallamarki þremur mínútum síðar en það dugði ekki til.

Kári og Gylfi léku báðir allan leikinn sem og þeir Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson hjá Reading. Þeir tveir síðarnefndu léku saman í vörn Reading í dag. Gylfi lék á vinstri kantinum hjá Reading en Kári í vörn Plymouth sem fyrr.

Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn með Coventry sem tapaði fyrir Nottingham Forest á útivelli, 2-0.

Emil Hallfreðsson var í byrjunarliði Barnsley og lék allan leikinn er Barnsley vann Middlesbrough, 2-1, eftir að hafa lent 1-0 undir í fyrri hálfleik.

Heiðar Helguson lék einnig allan leikinn fyrir Watford sem gerði 2-2 jafntefli við Bristol City á útivelli, 2-2.

Watford er í þrettánda sæti deildarinnar með 32 stig, Barnsley í því fimmtánda með 30, Coventry í sautjánda sæti með 28 stig, Reading í 20 sæti með 23 stig og Plymouth í því 22. með 21 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×