Íslenski boltinn

Guðmundur: Lít á þetta sem mikinn heiður

Ómar Þorgeirsson skrifar
Guðmundur í leik með Val síðasta sumar.
Guðmundur í leik með Val síðasta sumar. Mynd/Daníel

Atli Eðvaldsson var sem kunnugt er ráðinn þjálfari Vals í dag en Guðmundur Benediktsson, framherji KR, var hins vegar fyrsti kostur hjá Valsmönnum þegar þeir voru að leita að eftirmanni Willum Þórs en Vesturbæjarliðið vildi ekki sleppa hendi af honum.

Guðmundur er þakklátur Valsmönnum fyrir að hafa haft trú á sér en það sama gildi í raun í garð KR-inga.

„Mér fannst þetta að sjálfsögðu vera mikill heiður að þeir hafi viljað fara þessa leið og greinilegt að þeir bera mikið traust til mín. Ég er mjög þakklátur fyrir það en það var bara ekki í mínum höndum hvort af yrði eða ekki.

Ég er samningsbundinn KR og þeir vilja halda mér og það er líka ákveðin viðurkenning þannig að ég er alveg ánægður," segir Guðmundur og hlær við.

Guðmundur getur vel hugsað sér að snúa sér að þjálfun þegar leikmannaferli hans lýkur og vonast til þess að fá annað jafn spennandi tækifæri til þess að þjálfa þegar þar að kemur.

„Þar sem ég get víst ekki spilað endalaust þá er þjálfun klárlega eitthvað sem heillar mig og ég vona að ég verði viðriðinn knattspyrnuna áfram á einn eða annan hátt. Ég vona það líka að ég eigi eftir að fá svona tækifæri aftur í framtíðinni, þá undir öðrum kringumstæðum.

En mig grunar það að maður fái ekki oft á lífsleiðinni boð frá svona stóru liði um að þjálfa en það þýðir lítið að hugsa um það núna. Það er bara leikur á mánudaginn gegn Víði í VISA-bikarnum," segir Guðmundur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×