Íslenski boltinn

Orri: Gengið erfiðlega að vinna okkur upp úr svínaflensunni

Elvar Geir Magnússon skrifar
Orri Freyr Hjaltalín.
Orri Freyr Hjaltalín.

„Þetta var frekar súrt í kvöld," sagði Orri Freyr Hjaltalín, fyrirliði Grindvíkinga, eftir tap liðsins fyrir Keflavík í kvöld.

„Við byrjuðum leikinn ekkert voðalega vel en þegar líða tók á hann fannst mér við ná völdunum. Það er bara ótrúlegt að við náðum ekki að skora," sagði Orri en Magnús Sverrir Þorsteinsson skoraði eina mark leiksins.

„Markmið okkar var að halda markinu hreinu til að byrja með. Við höfum verið að fá okkur mikið af mörkum að undanförnu og spiluðum því aftarlega á vellinum. Svo færðum við okkur framar þegar á leið."

„Við fengum nokkur dauðafæri í seinni hálfleiknum en það er svekkjandi að hafa ekki náð að brjóta ísinn. Þá hefðu fleiri mörk fylgt í kjölfarið," sagði Orri.

En hvert er markmið Grindvíkinga í síðustu tveimur leikjunum? „Við ætlum bara að vinna þá báða, það er ekki flókið. Tímabilið hefur verið okkur vonbrigði, byrjuðum illa en komumst á fínt skrið en þá lentum við í skakkaföllum með svínaflensuna og annað. Það hefur gengið erfiðlega að vinna okkur upp úr henni," sagði Orri en Grindavík er í 9. - 10. sæti deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×