Íslenski boltinn

Fór í átta flugferðir og fjórar bátsferðir á átta dögum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Símun Samuelsen í leik með Keflavík.
Símun Samuelsen í leik með Keflavík. Mynd/Víkurfréttir

Óhætt er að segja að Símun Samuelsen, leikmaður Keflavíkur, þurfi að leggja á sig löng ferðalög þegar hann tekur þátt í leikjum með færeyska landsliðinu.

Færeyjar mættu Austurríki á útivelli og Litháen heima í síðustu landsleikjahrinu. Símun þurfti að fara í samtals átta flugferðir á átta dögum á meðan þetta stóð allt saman yfir.

„Þetta er bara eins og alltaf þegar maður er með landsliðinu. Það eru alltaf löng ferðalag sem fylgja því og það hefur stundum verið meira en þetta," sagði Símun í samtali við Vísi.

„Svo fengum við einn frídag líka og þá notaði ég tímann til að fara heim til mín. Það þýddi einnig fjórar bátsferðir."

Færeyjar unnu sinn fyrsta sigur í undankeppni stórmóts í átta ár þegar liðið lagði Litháen, 2-1. „Þetta var minn fyrsti sigur í undankeppni og auðvitað var mjög gaman að upplifa það. Þetta var góður og mikilvægur sigur fyrir okkur sem þjóð. Litháen er í 62. sæti heimslistans og við í 163. sæti. Þarna skilja að því rúmlega 100 sæti."

„En við höfum svo unnið nokkra æfingaleiki og var ég til að mynda í Kórnum í vetur þegar við unnum Ísland," segir hann og hlær. „Þú manst kannski eftir því."

Færeyingar mæta næst Frökkum á útivelli í afar mikilvægum leik fyrir Frakkana. Símun verður þó í banni í þeim leik.

„Ég hef þrisvar spilað við Frakka og auðvitað er fúlt af missa af þessum leik. Það er alltaf gaman að fá að spila gegn þeim bestu."

Símun er reyndar meiddur eins og er og óvíst hvort hann geti spilað með Keflavík gegn Grindavík í Pepsi-deildinni á morgun.

„Ég er meiddur aftan í læri og það tekur alltaf smá tíma að jafna sig. Það er æfing í kvöld og þá kemur betur í ljós hvort ég geti spilað á morgun."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×