Enski boltinn

Shearer: Barton átti skilið að fá rautt

Nordic Photos/Getty Images

Alan Shearer, stjóri Newcastle, hefur látið í það skína að hann muni sekta Joey Barton fyrir rauða spjaldið sem hann fékk að líta í leiknum við Liverpool í dag.

Barton fékk að líta rauða spjaldið eftir glórulausa tæklingu á Xabi Alonso, sem þurfti að fara meiddur af velli í kjölfarið.

Shearer var ekki sáttur við framgöngu Barton og heldur ekki við frammistöðu liðsins í leiknum, enda er Newcastle í bráðri fallhættu í deildinni.

"Hann átti skilið að fá rautt. Hann brást liðinu og sjálfum sér," sagði Shearer. Hann var spurður hvort Barton yrði sektaður. "Við gerum það sem við þurfum að gera," sagði Shearer.

Newcastle er þremur stigum frá öruggu sæti í deildinni og útlitið hefur aldrei verið svartara hjá norðamönnum.

"Við vorum heppnir að tapa bara 3-0. Ég veit ekki hve oft Liverpool skaut í marksúlurnar. Við vorum óheppnir í mörkunum. Fyrsta markið var rangstaða og hin komu eftir föst leikatriði. Það er mjög svekkjandi þegar menn geta ekki sinnt hlutverki sínu í föstum leikatriðum," sagði Shearer.

Hann var því næst spurður út í köll áhorfenda sem sungu "þú hefðir átt að halda áfram í sjónvarpinu," og vísuðu þar í starfið sem Shearer gegndi áður en hann samþykkti að taka við Newcastle á dögunum.

"Ég var að velta því fyrir mér hvort ég ætti að hlæja eða gráta, svo ég ákvað að hlæja bara," sagði Shearer, sem glotti þegar hann gekk af velli undir söngvum áhorfenda.

"Örlög okkar réðust ekki í þessum leik. Þau ráðast í heimaleikjunum tveimur sem við eigum eftir. Leikurinn við Middlesbrough er líklega stærsti heimaleikur þessa félags í langan tíma," sagði Shearer.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×