Innlent

Hafa fimm ár til að endurfjármagna 20 milljarða kvótaveð

Höskuldur Kári Schram. skrifar

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa 5 ár til að endurfjármagna skuldabréf upp á tugi milljarða króna að öðrum kosti mun Seðlabanki Lúxemborgar selja bréfin hæstbjóðanda. Bréfin eru öll með veði í kvóta nokkurra stærstu útgerða landsins.

Kvótaveðin komust í hendur erlendra aðila þegar Glitnir, rúmlega einum mánuði fyrir bankahrunið á síðasta árið, lagði skuldabréfavafning upp á eitt hundrað milljarða króna sem tryggingu gegn erlendu láni frá Seðlabanka Lúxemborgar.

Eins og fréttastofa greindi frá í jánúarmánuði síðastliðnum voru í þessum skuldabréfavafningi lán til nokkurra stærstu útgerða landsins með veði í kvóta. Í þessum hópi voru fyrirtækin HB Grandi, Þorbjörn og Brim.

Verðmæti kvótaveðanna er talið vera í kringum 20 milljarðar króna.

Seðlabanki Lúxemborgar ætlaði upphaflega að selja veðin hæstbjóðanda skömmu eftir að Glitnir féll en skilanefnd Glitnis náði samningum við bankann um að fresta þeim gjörningi. Var sá samningur undirritaður síðastliðið vor en samkvæmt honum fá útgerðarfyrirtækin fimm ár til að endurfjármagna lánin.

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, sagði í samtali við fréttastofu að með samningnum hafi verið komið í veg fyrir að óvinveittir aðilar eignuðust kvótaveðin.

Náist hins vegar ekki að endurfjármagna lánin á næstu fimm árum verða veðin seld hæstbjóðanda.

Eiríkur Tómasson, forstjóri Þorbjarnar hf, sagðist í samtali við fréttastofu vera sæmilega bjartsýnn á að fyrirtækinu takist að endurfjármagna lánin á næstu árum. Það muni hins vegar ráðast af því hvernig til tekst að koma bankakerfinu í eðlilegt horf.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×