Enski boltinn

Steve Bruce er mjög ánægður með nýja leikmanninn sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Bruce, stjóri Sunderland, í ensku úrvalsdeildinni.
Steve Bruce, stjóri Sunderland, í ensku úrvalsdeildinni. Mynd/AFP

Steve Bruce, stjóri Sunderland, er í skýjunum með nýjan leikmann félagsins, Paulo da Silva sem er fyrirliði landsliðs Paragvæ. Það vita kannski fáir hver þessi 29 ára varnarmaður er en hann hefur undanfarin sex ár leikið með Deportivo Toluca frá Mexíkó.

„Ég hef séð hann spila nokkrum sinnum og ég get fullyrt það að hann er mjög, mjög góður leikmaður eins og allir eiga eftir að sjá á þessu tímabili," sagði Steve Bruce á heimasíðu Sunderland.

Steve Bruce hefur gengið vel að koma með suður-ameríska leikmenn til Englands en það var einmitt hann sem fékk þá Wilson Palacios og Antonio Valencia til Wigan. Sunderland gerir þriggja ára samning við da Silva sem hefur leikið 53 landsleiki fyrir þjóð sína.

„Það tekur alltaf leikmenn frá Suður-Ameríku tíma að aðlagast enska boltanum en gæðin eru til staðar hjá da Silva," sagði Bruce.

Steve Bruce segir Sunderland vera að undirbúa fleiri kaup á nýjum leikmönnum fyrir komandi keppnistímabil í ensku úrvalsdeildinni en þetta verður fyrsta tímabil Bruce með liðið eftir að hafa stýrt Wigan frá árinu 2007.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×