Innlent

Skjóta á rjúpur úr bílunum

Ein upp til fjalla Tilkynnt hefur verið um veiðimenn á fjórhjólum utan vegar.
Ein upp til fjalla Tilkynnt hefur verið um veiðimenn á fjórhjólum utan vegar.

„Okkur hafa borist tilkynningar um að rjúpnaveiðimenn séu að þvælast upp á hálendið á jeppum og skjóta á fuglinn úr bílunum,“ segir Adolf Árnason, lögreglumaður á Hvolsvelli.

„Auk þessa fékk lögreglan á Hvolsvelli tilkynningu um helgina um að rjúpnaveiðimenn væru að aka utan vegar í umdæminu á fjórhjólum við veiðar. Slíkt er algerlega bannað.“

Adolf segir að lögreglan hafi gert gangskör að því á sunnudag að hafa hendur í hári þeirra sem fari ekki að lögum við rjúpnaveiði. Það hafi ekki tekist, enda um langan veg að fara, og mennirnir þá á bak og burt.

„En við munum hafa eftirlit með veiðimönnum og athuga hvort þeir eru með allt sitt í lagi, svo sem skotvopnaleyfi, veiðileyfi og byssur. Ef svo reynist ekki vera er lagt hald á það.“

Lögreglan á Hvolsvelli áréttar að óheimilt er að aka utan vegar. Enn fremur má ekki hafa hlaðið skotvopn nær ökutæki en 250 metra. Lögreglan biður veiðimenn að fylgja reglum í hvívetna til að komast hjá óþarfa slysum og landspjöllum. Jafnframt að hafa skotvopnaskírteini og veiðikort tilbúin til sýningar þegar lögregla óskar eftir. -jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×