Innlent

Tap í sjóðum lækki skattstofn

Talsmaður neytenda hvetur þá sem töpuðu á peningamarkaðssjóðum til að sækja um lækkun tekjuskattstofns hjá ríkisskattsjóra.fréttablaðið/vilhelm
Talsmaður neytenda hvetur þá sem töpuðu á peningamarkaðssjóðum til að sækja um lækkun tekjuskattstofns hjá ríkisskattsjóra.fréttablaðið/vilhelm

Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hvetur þá sem hafa tapað á peningamarkaðssjóðum við slit þeirra í haust að sækja um skattaívilnanir til ríkisskattstjóra. Skattaívilnun mundi þýða lægri tekjuskattsstofn. Skattstjóri hafði áður hafnað því að einstaklingar ættu rétt á ívilnunum, en Gísli telur að meta beri hvert og einstakt tilvik.

Í lögum um tekjuskatt kemur fram að skattstjóri skal taka til greina umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns ef „gjaldþol manns hefur skerst verulega vegna taps á útistandandi kröfum sem ekki stafa frá atvinnurekstri“. Ríkisskattstjóri hafnaði, í svari við erindi talsmannsins, því að þetta ákvæði ætti við. Talsmaður neytenda telur hins vegar að ekki sé hægt að víkja lagaákvæði til hliðar í skattframkvæmd.

Talsmaðurinn bendir á að ekki sé skilgreint hverjar séu „útistandandi kröfur“ sem skattalögin kveða á um. Hann hvetur því þá sem hafa tapað í sjóðunum að láta reyna á, að höfðu samráði við sérfræðinga, hvort tapið geti fallið þar undir.

Í áliti talsmannsins, sem birtist á heimasíðu hans, segir að líklegra sé að þeir sem nýlega fjárfestu í sjóðunum og fengu lægri útgreiðslu en þá sem nam upphaflegri fjárfestingu fái ívilnun en þeir sem fengu aðeins lægri arðgreiðslur.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×