Innlent

Sveitarfélög vilja fá endurgreiðslu

Sveitarfélögin fá væntanlega endurgreidda þá hækkun tryggingagjalds sem fellur á þau um áramótin. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að sambandið vilji að sveitarfélögin leggi út hækkað gjald en fái hækkunina endurgreidda úr ríkissjóði.

Ráðgerð hækkun tryggingagjalds úr 7% í 8,6% um áramót mun kosta sveitarfélögin allt að tveimur milljörðum króna, að sögn Halldórs.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar á laugardag að ríkisstjórnin myndi bæta sveitarfélögunum kostnaðarauka vegna tryggingagjalds.

Þegar gjaldið var hækkað úr 5,34% í 7% sl. sumar jukust útgjöld sveitarfélaganna einnig um tvo milljarða. Auknar útsvarstekjur vegna útgreiðslu séreignarsparnaðar úr lífeyrissjóðum í kjölfar hrunsins vógu upp áhrif þeirrar hækkunar þetta árið. Ákveðið hefur verið að framlengja heimild til að greiða út séreignarsparnað og útsvar vegna þess muni skila sveitarfélögum 2,5 milljörðum í auknar tekjur. Halldór Halldórsson segir að þær tekjur vegi aðeins upp á móti hækkun tryggingagjaldsins úr 5,34% í 7%. Hækkunin um næstu áramót mun ekki núllast út með sama hætti. Sveitarfélögin treysti þess vegna á yfirlýsingar um að stjórnvöld muni bæta hækkunina um áramót sérstaklega og þá með endurgreiðslum en ekki í gegnum Jöfnunarsjóð.- pg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×