Enski boltinn

West Ham vann Portsmouth og komst upp úr fallsæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Radoslav Kovac fagnar hér marki sínu með Alessandro Diamanti og Luis Jimenez.
Radoslav Kovac fagnar hér marki sínu með Alessandro Diamanti og Luis Jimenez. Mynd/AFP

West Ham vann 2-0 sigur á Hermanni Hreiðarssyni og félögum í Portsmouth í ensku úrvalsdeildinni í dag en stigin þrjú nægðu lærisveinum Gianfranco Zola til þess að komast upp úr fallsæti. Á sama tíma gerðu Fulham og Tottenham markalaust jafntefli.

Alessandro Diamanti skoraði fyrra mark West Ham úr vítaspyrnu á 23. mínútu eftir að Hayden Mullins felldi Luis Jimenez. Seinna markið skoraði Radoslav Kovac með skalla á 89. mínútu eftir sendingu frá Luis Jimenez.

Luis Jimenez bjó til bæði mörkin fyrir West Ham en hann kom inn á fyrir Mark Noble strax á 16. mínútu leiksins. Hermann Hreiðarsson spilaði allan leikinn með Portsmouth.

Þetta var fyrsti sigur West Ham liðsins síðan 28.nóvember en liðið var aðeins búið að fá eitt stig út úr síðustu fjórum deildarleikjum sínum. West Ham komst upp í 16. sætið með þessum sigri en það gæti reyndar breyst þegar hinum leikjum dagsins líkur.

Tottenham mistókst að komast í 3. sætið og upp fyrir Arsenal og Aston Villa þegar liðið gerði markalaust jafntefli í Lundúnaslagnum á móti Fulham. Fulham hefur ekki tapað í síðustu sex deildarleikjum sínum.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×