Enski boltinn

Benitez: Hefðum átt að fá annað víti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafa Benitez, stjóri Liverpool.
Rafa Benitez, stjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Rafael Benitez segir að Liverpool hefði átt að fá víti þegar að brotið var á Andrey Voronin í leik liðsins gegn Tottenham í dag.

Liverpool tapaði leiknum, 2-1, en hefði getað jafnað metin með marki úr vítaspyrnu. Liverpool var þá þegar búið að fá eitt víti í leiknum, þegar brotið var á Glen Johnson.

„Þetta var víti. Það er 100 prósent öruggt. Það sáu allir að þetta var víti,“ sagði Benitez eftir leikinn. „En þess fyrir utan var fyrri hálfleikurinn ekki góður hjá okkur. Sá síðari var mun betri.“

„Það voru ákveðin vonbrigði fólgin í því að þeir skoruðu aftur svo stuttu eftir að við jöfnuðum. Það er sérstaklega svekkjandi því við lögðum mikið á okkur í seinni hálfleik.“

Hann vildi ekki viðurkenna að liðið saknaði Xabi Alonso sem var seldur til Real Madrid í sumar. „Við höfum áður unnið leiki án þess að Xabi hafi verið að spila með og er það því ekki sanngjarnt að ræða þetta á þessum nótum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×