Íslenski boltinn

Selfyssingar biðja um leyfi hjá KR til að ræða við Gumma Ben

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Benediktsson fagnar hér marki með KR í sumar.
Guðmundur Benediktsson fagnar hér marki með KR í sumar. Mynd/Valli

Knattspyrnudeild Selfoss hefur óskað eftir leyfi hjá KR til að ræða við Guðmund Benediktsson með það fyrir augum að hann taki við þjálfun liðsins. Bylgjan greindi frá þessu í hádeginu.

Kristinn Kjærnested formaður knattspyrnudeildar KR staðfesti þetta við fréttastofu Stöðvar 2 Sport í morgun en sagði jafnframt að málið væri á algerum byrjunarreit og ekki komið lengra en þetta. Samningur Guðmundar hjá KR rennur út í næsta mánuði.

Eins og fram kom í gær hefur Gunnlaugur Jónsson þjálfari Selfyssinga gert samkomulag um að þjálfa Val eftir þetta tímabil.

Mikil reiði í garð Vals kraumar meðal leikmanna Selfossliðsins en þeir eru almennt ósáttir við Hliíðarendafélagið fyrir að bíða ekki með að ræða við Gunnlaug fyrr en eftir leiktímabilið.

Í viðtölum við ýmsa netmiðla gagnrýna þeir bæði Val og Gunnlaug, „Skítleg vinnubrögð" segir Sævar Þór Gíslason á mbl.is, „skelfileg vinnubrögð" segir Jón Guðbrandsson á fótbolti.net og Ingólfur Þórarinsson segir að Valur sé „skítaklúbbur."

Leikmenn Selfoss heyrðu fréttirnar ýmist skömmu fyrir leikinn gegn Haukum í gær eða í búningsklefanum eftir leik og segir Gunnlaugur það hafa verið erfiða stund. Hann gerir þriggja ára samning við Val en verður auk þess yfirmaður afrekshóps félagsins og honum til aðstoðar verður James Bett.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×