Innlent

Segist hafa fengið gúmmítékka frá Sun Life

Sun Life.
Sun Life.

Kennarinn og tónlistarmaðurinn Kári Friðriksson segist hafa fengið gúmmítékka frá séreignalífeyrissparnaðinum Sun Life eftir að hann var ofrukkaður af fyrirtækinu. Sjálfur tók hann út sparnaðinn sinn í apríl-maí á síðasta ári en átta mánuðum síðar fór Sun Life að taka aftur greiðslur út af greiðslukortinu hans.

„Þetta var mjög klaufalegt af þeim," segir Kári sem reyndi að stoppa þetta samstundis. Það tókst illa og þurfti hann að hafa samband við sjóðinn í Englandi og tókst þá að leiðrétta mál sín að lokum en ekki fyrr en fyrirtækið hafði tekið þrisvar af kortinu hans. Hann heimtaði þá endurgreiðslu enda var hann hættur í viðskiptum við Sun Life.

Eftir allnokkra þrautagöngu að eigin sögn þá fékk hann helming greiddan til baka eða um 150 pund.

„Og svo er tékkinn sendur til mín," segir hann en í seinna skiptið fékk hann tékka upp á önnur 150 pund sendan heim til sín frá Sun Life. Það var svo fyrir þremur vikum síðan sem hann fór og skipti tékkanum, á núverandi gengi fékk um það bil 30 þúsund krónur fyrir.

„Og í ljós kom að það var engin innistæða fyrir honum," segir Kári en bankinn krefur hann sjálfan nú um endurgreiðslu upp á þrjátíu þúsund krónur vegna gúmmítékkans. Þegar hann leitaði eftir svörum í bankanum fengust þau svör að það hefði ekki verið peningur inn á þeim reikning sem tékkinn var stílaður á.

„Þetta er bara pirrandi að virðulegt fyrirtæki geti ekki borgað manni til baka," segir Kári sem er orðinn langþreyttur.










































Fleiri fréttir

Sjá meira


×