Enski boltinn

Mancini: Shay er besti markvörðurinn í ensku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini var ánægður með sína menn í dag.
Roberto Mancini var ánægður með sína menn í dag. Mynd/AFP

„Þetta var góður leikur að mínu mati. Leikmennirnir mínir voru frábærir því það er ekki auðvelt að spila á móti Stoke. Fyrsta vikan er allt í lagi og það var mikilvægt að finna rétta jafnvægið í liðinu," sagði Roberto Mancini, stjóri Manchester City eftir 2-0 sigur á Stoke í fyrsta leiknum undir hans stjórn í ensku úrvalsdeildinni.

Mancini hrósaði írska landsliðsmarkverði sínum sem stóð sig vel í leiknum í dag og náði að halda marki sínu hreinu í fyrsta sinn síðan 1. nóvember.

„Shay er að mínu mati besti markvörðurinn í ensku deildinni og einn af þeim fimm bestu í heimi. Hann stóð sig mjög vel í dag," sagði Mancini.

Mancini var líka ánægður með Brasilíumanninn Robinho sem lagði óbeint upp fyrsta mark liðsins þegar hann hitti ekki boltann fyrir framan markið. Boltinn barst til Martin Petrov sem skoraði.

„Robinho spilaði vel en eftir 70 mínútur var hann orðinn þreyttur og ég ákvað að koma með nýjan leikmann inn í aðra stöðu," sagði Mancini.

Mancini kvartaði ekkert yfir því að þurfa að spila yfir hátíðirnar. „Ég elska starfið mitt og það er fínt að spila á annan í jólum," sagði Mancini.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×