Innlent

Sendiráð Íslands í Washington flytur í nýtt húsnæði

Sendiráð Íslands í Washington flytur um mánaðarmótin í nýtt húsnæði. Fjárlög gera ráð yfir 100 milljón krónum í kostnaði vegna starfsemi sendiráðsins í ár.

Á vef utanríkisráðuneytisins segir að flutningur sendiráðsins skapi tækifæri til hagræðingar og aukinnar hagkvæmni í rekstri þess.

Hið nýja aðsetur sendiráðsins er í Sænska húsinu í Washington, en sendiráð Svíþjóðar er einnig þar til húsa. Sendiráð Íslands hefur undanfarin fimmtán ár verið í leiguhúsnæði en á síðasta ári var ljóst að eigandi þess ætlaði að nýta það sjálfur og framlenging leigusamnings því ekki möguleg.

Fram kemur á vef utanríkisráðuneytisins að nýja húsnæðið sé talsvert minna en eldri húsakynni en fækkað um einn útsendan diplómat í sendiráðinu. Sendiráðið mun hinsvegar njóta góðs af fundarsölum og aðstöðu til menningarstarfsemi sem til staðar eru í Sænska húsinu. Ennfremur er flutningurinn í samræmi við þá stefnu Norðurlandanna að sendiráð þeirra erlendis séu í nágrenni hvert við annað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×