Innlent

Ógnuðu dyraverði með skrúfjárni

Tveir menn voru handteknir í miðborg Reykjavíkur í nótt eftir að hafa ógnað dyraverði með skrúfjárni. Mennirnir voru færðir í fangageymslur lögreglunnar og bíða þess að vera yfirheyrðir. Þá var einn maður sem þurfti að leita sér aðstoðar vegna fótbrots eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás. Árásarmaður er talinn hafa verið einn að verki.

Talsverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt en mikið af fólki var að skemmta sér í miðborg Reykjavíkur.

Lögreglan var einnig kölluð upp í Breiðholt þar sem þrír ungir piltar brutu rúðu í Seljaskóla. Íbúi í hverfinu tilkynnti um ferðir piltanna. Þegar lögreglan kom á vettvang hröðuðu piltarnir sér á hlaupum, tveir komust undan en lögreglan náði þeim þriðja. Hann fékk tiltal að sögn lögreglu og var svo sleppt í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×