Enski boltinn

Hermann hetja Portsmouth - skoraði fyrra markið í 2-0 sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hermann Hreiðarsson skoraði flott mark í dag.
Hermann Hreiðarsson skoraði flott mark í dag. Mynd/AFP

Hermann Hreiðarsson var heldur betur í sviðsljósinu í lífsnauðsynlegur 2-0 sigri Portsmouth á Burnley á Fratton Park í ensku úrvalsdeildinni í dag. Hermann fékk vítaspyrnu á silfurfati í fyrri hálfleik sem nýttist ekki og skoraði síðan fyrra mark liðsins með flottu skoti á 65. mínútu.

Þetta var fjórði leikur Hermanns með Portsmouth síðan að hann snéri aftur meiðslunum en sá fyrsti sem Portsmouth nær að vinna. Þetta var líka fyrsti sigur liðsins síðan 31. október (4-0 sigur á Wigan) og fyrstu stig liðsins undir stjórn Ísraelans Avram Grant.

Markið skoraði Hermann eins og alvöru sóknarmaður. Sóknarmenn Portsmouth hafa farið illa með færin í vetur og kannski væri bara best fyrir Avram Grant að setja Hermann í sóknina. Hermann fékk stutta og skemmtilega sendingu frá varamanninum Kanu inn í teiginn, rétt slapp við rangstöðuna og skoraði með hnitmiðaðu vinstri fótar skoti í fjærhornið.

Hermann var líka í sviðsljósinu þegar hann fiskaði vítaspyrnu á 31. mínútu fyrri hálfleiks. Hermann tók þá við boltanum á brjóstkassann og féll án þess að einhver kæmi við hann.

Hermann stóð upp strax og ætlaði að halda áfram en þá hafði dómarinn Phil Dowd dæmt víti. Hermann gekk vandræðalegur í burtu en réttlætinu var fullnægt því Aruna Dindane lét Brian Jensen verja frá sér vítið.

Aruna Dindane bætti fyrir vítaklúðrið sitt með því að skora annað mark Portsmouth með skalla á 83. mínútu eftir fyrirgjöf Jamie O'Hara en Hermann og O'Hara höfðu þá spilað stutt saman út á vinstri vængnum.

Portsmouth er nú komið með tíu stig og komst því því upp úr botnsætinu og upp fyrir Wolves á markatölu en Úlfarnir eru að fara að spila við Bolton klukkan 15.00.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×