Innlent

Vanskil einstaklinga þrefaldast frá því í fyrra

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Vanskil einstaklinga vegna banka- og bílalána hafa rösklega þrefaldast fyrstu þrjá mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra.

Menn búast ekki við því að afleiðingar banka og krónuhrunsins fari að sjást í alvarlegustu vanskilum fólks fyrr en í haust. Þó eru nú þegar tæplega 18.600 einstaklingar á vanskilaskrá.

Þjóðin skuldar nú um 1.430 milljarða króna í húsnæði sínu. Nýjar tölur frá Creditinfo yfir vanskil sýna að ástandið fera bara versnandi. Fyrstu þrjá mánuði síðasta árs voru liðlega 1100 vanskilakröfur skráðar á fólk sem ekki gat staðið í skilum með banka- og eða bílalán.

Fyrstu þrjá mánuði þessa árs hafði kröfunum fjölgað í rösklega 3700. Á einu ári hafa því vanskil af bíla og íbúðalánum hjá bönkunum meira en þrefaldast. Og þótt þetta sé dökk mynd, má gera ráð fyrir að hún dökkni enn frekar, því búist er við að með haustinu fari afleiðingar hrunsins að sjást í alvarlegustu vanskilunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×