Enski boltinn

Cesc Fabregas saklaus í "hrákumálinu"

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas, fyrirliði Arsenal.
Cesc Fabregas, fyrirliði Arsenal. Mynd/AFP

Enska knattspyrnusambandið hefur tekið fyrir mál Cesc Fabregas, fyrirliða enska úrvalsdeildarliðsins Arsenal, en forráðamenn Hull héldu því fram að hann hefði hrækt á Brian Horton, aðstoðarmann Phil Brown, í leikmannagöngunum.

Enska knattspyrnusambandið segir Cesc Fabregas vera saklausan í málinu og hefur vísað burt kæru á hendur hans.

Málið var tvíþætt, annarsvegar hegðun Fabregas inn á vellinum eftir að lokaflautið gall og hinsvegar að hann átti að hafa hrækt á aðstoðarmann Hull á leið til búningsklefa.

Cesc Fabregas lék ekki í umræddum leik þar sem að hann var meiddur en liðin mættust þarna í endurteknum leik í fimmtu umferð enska bikarsins og vann Arsenal leikinn 2-1.

Fabregas hefur alltaf haldið sakleysi sínu fram. „Ég er rólegur því ég veit að ég gerði ekkert rangt. Ég hef hreina samvisku í þessu máli," sagði Fabregas um kæruna á hendur sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×