Innlent

Landsmenn óvelkomnir í sumarhöll Lýðs

Mikil öryggisgæsla er við sumarhús Lýðs Guðmundssonar í Fljótshlíð. Myndavélar og skilti eru til varnar því að ókunnugir fari upp að húsinu.

Lambalækur, sumarhús Lýðs Guðmundssonar, sem kenndur er við Bakkavör, er í Fljótshlíðinni, sem er í rúmlega 100 kílómetra akstursfjarlægð frá Reykjavík.

Húsið er allt hið glæsilegasta. Stendur hátt og er með útsýni yfir landið og miðin. Meðal annars sést til Vestmannaeyja til suðurs og jöklasýn er til austurs. Húsið sjálft er rúmlega 550 fermetrar, en þegar allt er meðtalið, til að mynda niðurgrafin véla- og tækjageymsla, er byggingin samtals um 900 fermetrar.

Húsakosturinn er algerlega úr takti við hefðbundna sveitabæi í nágrenninu hvað íburð varðar, en kostnaður við bygginguna fer ekki undir 300 milljónum samkvæmt heimildum fréttastofu. Lokið var að mestu við húsið fyrir bankahrun, síðan hefur þó verið unnið að ýmsum frágangi, bæði innandyra og utan.

Greinilega hefur verið vandað mjög til verka. Inni í húsinu er að sögn allt til alls, en lögð áhersla á íslenska efnisnotkun, til að mynda eru blágrýtisflísar víða.

En þótt sauðféð rambi um grasbalana óáreitt, er þess vandlega gætt að óviðkomandi láti það vera að guða á glugga og eru stöðugir ljósblossar til marks um að myndavélagæslan sé vel virk. Landsmenn eru því ekki velkomnir í Fljótshlíðina, í það minnsta ekki heim að Lambalæk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×